Lýsa andstöðu við virkjanir í Þjórsá

Náttúruverndarsamtök Íslands gagnrýna að virkjanir í Skjálfandafljóti skuli ekki hafa verið slegnar af og settar í verndarflokk. Náttúruverndarsamtök Íslands lýsa andstöðu sinni við virkjanir í neðri Þjórsá.

Drög að þingsályktunartillögu um vernd og orkunýtingu landsvæða eru mikilvægur sigur að mati Náttúruverndarsamtaka Íslands.

„Við stofnun Náttúruverndarsamtakanna árið 1997 var stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands meginmarkmið. Þingsályktunartillagan er stórt skref í þá átt. Við blasir að stofnaður verði Hofsjökulsþjóðgarður með Þjórsárver í suðri (Norðlingaölduveita hefur loks verið slegin af), Kerlingafjöll í vestri og Guðlaugstungur norðan Hofsjökuls en samkvæmt tillögunni verða öll þessi svæði sett í verndarflokk. Næsta skref yrði að bæta við Jökulsám Skagafjarðar og Hveravallasvæði, sem settar voru í biðflokk,“ segir í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands.

„Önnur mikilvæg svæði í verndarflokki eru Torfajökulssvæði (þegar friðland), Jökulsá á fjöllum (hluti af Vatnajökulsþjóðgarði), Vonarskarð, Ölkelduháls (Bitruvirkjun) og Gjástykki.

Ekki ólíkt miðhálendi Íslands er Reykjanesskaginn einstakt svæði á heimsvísu. Náttúruverndarsamtök Íslands gagnrýna að svæði á borð við Sveifluháls og Stóra-Sandvík eru sett í nýtingarflokk. Sterk rök hníga að því að stofnaður verði eldfjallaþjóðgarður á Reykjanesskaga,“ segir ennfremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert