„Þetta var eins og sprenging. Ég hélt að ekið hefði verið á húsið eða eitthvað álíka,“ segir íbúi á Ísafirði, en bandarískar herflugvélar voru á flugi yfir Vestfjörðum í dag. Hvellurinn heyrðist víða við Ísafjarðardjúp.
Bandarískar herþotur eru þessa dagana að sinna loftrýmisgæslu við Ísland. Flugmálastjórn staðfesti í dag að herþoturnar hefðu verið á flugi yfir Vestfjörðum um miðjan dag í dag.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni hafa engar kvartanir borist til hennar vegna flugs þotnanna, en eftir að Varnarmálastofnun var lögð niður tók Landhelgisgæslan að hluta til við verkefnum hennar.
Hrafnhildur Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, sagðist ekki hafa fengið upplýsingar um að þoturnar hefðu rofið hljóðmúrinn. Þeim væri gert að fylgja alþjóðlegum reglum og þær hefðu verið virtar. Hún sagði að það heyrðist hins vegar mikið í þessum þotum, t.d. þegar þær tækju snöggar beygjur.
Þoturnar verða með aðflugsæfingar við Akureyri og Egilsstaði meðan á æfingunum stendur, en ferð þeirra til Íslands er bæði hugsuð sem æfingaflug og loftrýmisgæsla. Æfingaflugi þotnanna lýkur 9. september.