Upplýsingafulltrúi Iceland Express segir það ekki rétt að farþegar félagsins, sem dvelja þurftu í flugstöðinni í Alicante á Spáni í nótt, hafi engar upplýsingar fengið. Hann hafi sjálfur rætt við nokkra farþega og beðið þá um að koma upplýsingum áleiðis. Auk þess hafi verið séð til þess að allir hafi fengið hressingu.
„Ég geri mér grein fyrir því að það komu upp erfiðleikar, þetta kom upp á á versta tíma, það var búið að loka flugvellinum og það er háannatími á þessu svæði núna,“ segir Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express.
„Fulltrúi okkar var á flugvellinum allan tímann, í alla nótt, og við gerðum okkar besta til þess að fólki liði sem best við erfiðar aðstæður. Sjálfur talaði ég við tvo úr þessum hópi og bað þá um að koma upplýsingum áleiðis, það gefur auga leið að ég get ekki talað við tugi manna. Það má vel vera að einhverjir hafi ekki meðtekið upplýsingarnar og það er leitt.“
Að sögn Heimis Más var afar erfitt að finna gistingu fyrir farþegana, en háannatími er nú í Alicante. „Samkvæmt fyrirskipun frá okkur var barnafólk látið ganga fyrir og þau voru komin á hótel um klukkustund eftir að í ljós kom að vélin var ekki að fara. Síðan fengu fatlaðir einstaklingar og fylgdarfólk þeirra einnig forgang. Margir í hópnum eru með sínar eigin íbúðir á svæðinu og fóru í þær.“
Heimir Már segir að fólkinu hafi verið boðin hressing, eins og kostur var á. „Þegar það var ljóst að vélin var ekki að fara, þá var búið að loka öllum veitingastöðum á flugvellinum. En það var hægt að fá drykki fyrir alla. Síðan gekk starfsmaður okkar á staðnum í að láta opna veitingastað. Það var fyrirskipun frá mér að allir fengju eitthvað að borða og drekka.“
Að sögn Heimis Más eru flugvirkjar á vegum Iceland Express nú komnir til Alicante frá London til að skoða vélina. Ákvörðun um brottfarartíma verður tekin að þeirri skoðun lokinni.
„Farþegarnir fá síðan upplýsingar frá okkar fulltrúa á staðnum og verða því miður að bíða átekta. En það er ljóst að vélin fer ekki fyrr en seinnipartinn í dag.“