Ísland hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Samtök iðnaðarins telja mikilvægt að umsóknarferlinu sé haldið áfram af fullum heilindum og í náinni samvinnu við atvinnulíf og aðra hagsmunaaðila. Þetta kemur fram á vef samtakanna.
„Iðnþing er æðsta vald Samtaka iðnaðarins og hefur undanfarin ár ályktað um Evrópumál. Síðast var lögð áhersla á að ljúka viðræðum og leggja áherslu á víðtæka hagsmuni heildarinnar. Hagfelldur aðildarsamningur kann að vera fyrirtækjum og heimilum til mikilla hagsbóta.
Samtök iðnaðarins telja engar líkur til að samningur, þar sem veigamiklum hagsmunum verður fórnað, verði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Af þessum sökum er mikilvægt að ljúka ferlinu með það að markmiði að tryggja hagsmuni þjóðarinnar með sem hagstæðustum samningum til langs tíma,“ segir á vef Samtaka iðnaðarins.