Mikil umferð er nú í miðborg Reykjavíkur, en tugþúsundir sækja nú hina ýmsu viðburði Menningarnætur. Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa hátíðahöld og umferð gengið nokkuð vel fyrir sig. Þó hefur lögregla þurft að eiga við „freklega ökumenn“ sem hentu til merkjum sem lokuðu götum í miðborginni.
„Á milli klukkan tvö og fjögur þurftum við að berjast við ansi ósvífna ökumenn sem færðu til keilur og lokunarharmonikkur svo þeir gætu ekið um götur sem hafði verið lokað,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
„Götunum er lokað með samþykki lögreglu og þetta ber að virða.“
Að sögn Guðbrands standa björgunarsveitarmenn vaktina á nokkrum stöðum þar sem götum hefur verið lokað til að gæta þess að lokunin sé virt. „En auðvitað á ekkert að þurfa að passa upp á þetta,“ segir Guðbrandur.
Hann segir erfitt að áætla hversu margir séu staddir í miðborginni í dag, en yfirleitt hafi verið rúmlega 100 þúsund manns á Menningarnótt. Fjöldinn sé síst minni nú.
Talsvert fleiri stöðumælaverðir eru að störfum í miðborginni nú en á „venjulegum“ laugardegi. Hann segir að ekki sé nokkur leið til að taka vægar á stöðubrotum nú en aðra daga.
„Þetta eru lög og það er engin undanþáguheimild í þeim. Það gilda sömu lög alla daga.“