Alrangt er að Iceland Express hafi átt eftir að greiða fyrir leigu á flugvélinni sem fengin var til Alicante í staðinn fyrir þá sem bilaði í fyrradag, og þess vegna hafi farþegar verið látnir fara aftur út úr vélinni eftir að þeir voru komnir þangað inn.
Farþegi hélt þessu fram í samtali við mbl.is nú í hádeginu í dag. „Leiguvél kemur ekki frá Madríd til Alicante án þess að búið sé að ganga frá leigusamningi og öllu sem fluginu viðkemur," segir Heimir Már. Búið hafi verið að ganga frá þessu öllu. Hins vegar hafi farþegar verið látnir fara aftur út úr vélinni þar sem enn átti eftir að dæla eldsneyti á hana þegar þeir voru komnir þangað út.
Það helgast af því að nokkurn tíma tók að sannfæra spænskt bensínafgreiðslufyrirtæki um að dæla ætti eldsneyti sem Iceland Express hefði borgað fyrir, á þessa tilteknu vél, þar sem hún var ekki sú sama og upphaflega hafði átt að fara flugið.
Var þá um tvennt að velja, annað hvort að láta farþega sitja í vélinni með sætisólar lausar, í samræmi við öryggisreglur, hurðina opna og slökkviliðið í viðbragðsstöðu fyrir utan, eða að rýma vélina í smá stund. Í stað þess að láta farþega upplifa sig í hættu hafi verið ákveðið að láta þá bíða inni í flugstöðvarbyggingunni á meðan dælt var á vélina.
,,Þegar 200 þreyttir farþegar koma saman í flugstöð þá fæðast kjaftasögur mjög auðveldlega og fjöður verður að hænsnabúi," segir Heimir Már og ítrekar að Iceland Express hafi gert allt í sínu valdi til að lágmarka óþægindin fyrir farþega, sem hlutust af biluninni.
Spænskur starfsmaður á fótum í 30 klukkustundir
Þá segir Heimir Már það alrangt að sínu viti að flugvallarstarfsmenn hafi reynt að telja fólki trú um að með því að fara út úr flugstöðvarbyggingunni hefðu farþegar fyrirgert rétti sínum til að fara á hótel á meðan þeir biðu.
,,Okkar starfsmaður, spænsk kona, var á fótum í 30 klukkustundir til að sjá um þennan hóp. Það hvað varð um farþegana hafði ekkert með flugvallarstarfsmenn að gera. Það var alfarið séð um þetta á aðalskrifstofunni í Reykjavík og af starfsmanninum í Alicante, sem gerði kraftaverk í því að leysa málin. Það er kraftaverk að hún skyldi yfirleitt finna hótel fyrir um 125 manns á þessum tíma í Alicante," segir Heimir Már. Háannatími sé þar og meðal annars tugþúsundir manna á svæðinu í tengslum við stóra hjólreiðakeppni.
Tóku flugið út á vefnum til að gefa engar falskar vonir
Um það hvort tilkynnt hafi verið á vefnum airport.is hér heima að fluginu myndi seinka, löngu áður en farþegar voru upplýstir um það, segir Heimir Már einnig alrangt.
Á airport.is sé ekki hægt að setja inn skilaboð um að flugi sé „seinkað um ófyrirsjáanlegan tíma“. Aðeins sé hægt að setja inn tilgreina brottfarar- og komutíma.
„Við vildum ekki setja inn einhvern tíma sem gæfi fólki falskar vonir. Til þess að forðast misskilning þá tókum við flugið út af síðunni þannig að það var ekkert Alicante þar inni. Við settum það svo aftur inn þegar við vissum brottfarartímann,“ segir Heimir Már.
Hann segir að þegar 200 manna hópur tefjist á ferðalagi verði alltaf til einhver misskilningur um ástæður þess, en allt hafi verið gert til að upplýsa farþega með beinum hætti. Eðlilega hafi hann þó ekki haft tök á að hringja í alla í hópnum.