„Umræðan um Kvikmyndaskólann opinberar valdabaráttuna milli Katrínar Jak. og Svandísar Svavars um varaformannsembættið í VG,“ segir Lilja Mósesdóttir, alþingismaður, á Facebook-síðu sinni rétt í þessu. Sem kunnugt er sagði Lilja sig úr þingflokki Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs fyrr á þessu ári.
Eins og fjallað hefur verið um hér á mbl.is komst mennta- og menningarmálaráðuneytið að þeirri niðurstöðu á fimmtudaginn að Kvikmyndaskóli Íslands uppfyllti ekki skilyrði viðurkenningar um rekstrarhæfi. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, er starfandi mennta- og menningarmálaráðherra á meðan Katrín Jakobsdóttir er í fæðingarorlofi.
Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, hefur farið hörðum orðum um Katrínu vegna málefna Kvikmyndaskólans í kjölfar niðurstöðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins en um leið borið blak af Svandísi og sagt hana hafa verið setta í óbærilega stöðu vegna málsins.
Lilja minnir í lok stöðufærslunnar á Facebook-síðu sinni að kosið verði í embætti formanns og varaformanns á landsfundi VG í október.
Facebook-síða Lilju Mósesdóttur