Farþegi sem kom frá Alicante á Spáni til Íslands í morgun, tveimur dögum eftir að hann skráði sig út af hótelinu þar ytra, segir ferðina ekki hafa verið ánægjulega.
Þar sem flugvél Astraeus, sem upphaflega átti að flytja farþegana til Íslands, hafi bilað hafi allnokkrir farþegar þurft að bíða á flugvellinum yfir nótt þar sem ekki var til laust gistipláss fyrir þá neins staðar. Þó fengu þeir farþegar sem mest þurftu á gistirými að halda slíka þjónustu, einna helst eldra fólk og fólk með börn.
Segir farþeginn að mjög langan tíma hafi tekið að fá samloku og drykk í flugstöðinni, þrátt fyrir að farþegarnir hafi ekki verið þar sjálfviljugir. Það hafi þó tekist eftir um fimm klukkustundir, gegn framvísun brottfararspjalds.
Nokkru eftir það hafi farþegum verið tjáð af flugvallarstarfsmönnum að þeir ættu að taka töskurnar sínar og fara út úr flugstöðinni til þess að fara á hótel. Þegar út var komið tjáði flugvallarstarfsmaður þeim hins vegar að með því að fara út úr flugstöðvarbyggingunni hefðu farþegarnir fyrirgert rétti sínum til þess að fá að fara á hótel. Að sögn farþegans var afar lítil stoð í fararstjóra frá Plúsferðum, sem var þar með og var á svæðinu, en eftir nokkurt stapp við flugvallarstarfsmenn hafi verið hægt að fá þá ofan af þessari afstöðu sinni.
Einna mest hjálp hafi verið í flugstjóra Astraeus, Bruce Dickinson, í öllu ferlinu, en hann hafi viljað sem mest gera fyrir farþegana og ýtt á það.
Þá vakti það undrun farþegans að þegar hann var kominn út að hliðinu á flugstöðinni á Spáni, rétt áður en ljóst varð að ekki yrði farið í loftið fyrr en löngu síðar, hringdi faðir hans í hann frá Íslandi, til þess að segja honum að bíða með að fara út á flugvöllinn, þar sem mikil seinkun yrði á fluginu. Þá hafði hann lesið það inni á heimasíðu flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, að mikil seinkun yrði á komu vélarinnar þangað og hafði sú uppfærsla verið þar inni um nokkra hríð. Enginn farþeganna við hliðið vissi hins vegar nokkuð um neina seinkun.
Þegar seinni vélin var svo að fara í loftið hafi orðið enn frekari seinkun vegna þess, eins og flugvallarstarfsmenn greindu frá, að Iceland Express ætti eftir að greiða fyrir leiguna á vélinni. Hvort sem það sé rétt eða ekki hafi farþegarnir fyrst beðið í um 20 mínútur fyrir utan hliðið, þá farið út í vél en svo verið reknir aftur út úr vélinni og þurft að bíða í aðrar 40 mínútur við landganginn og svo aftur í um hálftíma úti í vél þegar þangað var komið að nýju.
Uppfært klukkan 13.03: Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express, svarar aðfinnslum farþegans í samtali við mbl.is hér.