Tugþúsundir eru nú í miðborg Reykjavíkur og dagskrá Menningarnætur er hvergi nærri lokið. Auk stórra tónlistarviðburða á Arnarhóli og Ingólfstorgi eru stórir og smáir tónleikar innanhúss og utan á víð og dreif um borgina.
Raggi Bjarna og tríó Guðmundar Steingrímssonar syngja og spila til klukkan 23:00 í Eymundsson Austurstræti.
Í dómkirkjunni hljóma nú aríur og dúettar í flutningi þeirra Agnesar Amalíu Kristjónsdóttur, Guðrúnar Jóhönnu Jónsdóttur, Jóhönnu Héðinsdóttur og Nathalíu Druzin Halldórsdóttur.
Á Barböru heiðrar söngkonan Lísa allar konurnar í rokksögunni og á milli klukkan 22:00 og 22:30 flytur tríóið KremKex þriggja radda stríðsára-rómansa í Fríkirkjunni.