„Við teljum okkur hafa ærna ástæðu til bjartsýni. Hún gaf okkur vonarneista með þessum orðum sínum, þegar öll sund virtust lokuð. Og sá vonarneisti hefur ekki verið slökktur,“ segir Hilmar Oddsson, skólastjóri Kvikmyndaskóla Íslands.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á föstudag að skólanum yrði tryggt fjármagn til þess að geta haldið áfram rekstri, en í kvöldfréttum RÚV sama dag var birt athugasemd frá aðstoðarmanni hennar, þess efnis að ekkert slíkt hefði verið samþykkt í ríkisstjórn. Jóhanna hefur þó ekki dregið orð sín til baka.
Hilmar segir ekki hægt að skilja hlutina öðruvísi en svo að það sem forsætisráðherra segi standist, a.m.k. þar til hún tekur það til baka með skýrum hætti. Hann segir Jóhönnu hafa brugðist vel og fallega við boði um að mæta á kvikmyndasýningu hjá skólanum í gær, en hún hafi ekki komist. Full virðing sé í samskiptum hennar við skólann.
Tíminn alveg að renna út
Ekki verður af skólasetningunni sem ráðgerð hafði verið á morgun, en Hilmar segir að ef yfirleitt eigi að kenna við skólann í haust þurfi skólasetning að verða í lok vikunnar eða byrjun þeirrar næstu.
„Ég held að menn séu að tala saman. Við erum að tala saman í okkar ranni. Dagurinn er ekki að kvöldi kominn. Við skulum bara sjá, þetta er staðan núna og hún gæti breyst áður en dagurinn er á enda,“ segir Hilmar, þegar hann er spurður hvort einhver hreyfing sé á málunum. Hann kveðst munu setja sig í samband við forsætisráðuneytið í vikunni ef ekkert gerist fljótlega.
Hann segist vilja kynna málið fyrir fólki með staðreyndum og bendir í því sambandi á vef sem hann hefur látið setja upp, staðreyndir.com, en þar að auki má finna ítarlega umfjöllun um mál skólans í Sunndagsmogganum í dag.
Ráðuneytið mætti með námsráðgjafa á fund með nemendum
Hilmar segir jafnframt að málinu sé mætt með nokkru skilningsleysi og litið sé svo á að nemendur skólans eigi einfaldlega að snúa sér að einhverju öðru en kvikmyndagerð, þegar skólinn líður undir lok. Hins vegar séu margir nemendur í skólanum vegna þess að þeir hafi ástríðu fyrir þessu námi og geti ekki hugsað sér að mennta sig í neinu öðru fagi.
Á föstudaginn hélt menntamálaráðuneytið fund með nemendum skólans og segir Hilmar að á fundinn hafi mætt, ásamt ráðuneytisstarfsmönnum, námsráðgjafar sem hafi boðið nemendum aðstoð við að finna út úr því í hvaða annað nám þeir gætu farið. M.ö.o. hvernig þeir gætu skipt um stefnu í lífinu.
„Þetta var kannski fallega meint,“ segir Hilmar „en nemendur tóku þessu margir frekar illa.“