Margvísleg mál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á Menningarnótt. Karlmaður um þrítugt var handtekinn við sendiráð í borginni um tvöleytið í nótt. Maðurinn hafði farið inn á lóð þess og flaggað flík á fánastöng sendiráðsins.
Hann vildi hvorki segja til nafns né framvísa skilríkjum. Eftir stutta dvöl á lögreglustöð var manninum sleppt en þá hafði verið gengið úr skugga um hver hann væri.
Gestir á Menningarnótt voru í misjöfnu ástandi. Einn þeirra, karl á fertugsaldri, sofnaði ölvunarsvefni á Fríkirkjuvegi og var fluttur á lögreglustöð.
Fljótlega eftir að þangað var komið vaknaði maðurinn sæmilega hress miðað við aðstæður og var honum gerð grein fyrir afskiptum lögreglu. Maðurinn lét sér það í léttu rúmi liggja, glotti bara og sagði „þarna þekki ég karlinn“. Hann hélt svo sína leið.