Sækja um bætur á morgun

Nemendur, sem hugðu á nám í Kvikmyndaskóla Íslands í vetur, sækja um atvinnuleysisbætur á morgun. Þeim reiknast svo til að bæturnar muni nema um 256 milljónum á ári fyrir þá 140 nemendur, sem skráðir voru í skólann. Áætlað hefur verið að skólann vanti um 70 milljónir til að geta haldið áfram starfsemi.

„Í stað þess að mæta á skólasetningu Kvikmyndaskóla Íslands sem átti að vera á morgun, 22. ágúst, ætlum við mæta klukkan 10:00 í Vinnumálastofnun og sækja um atvinnuleysisbætur,“ segir Ari Birgir Ágústsson, nemandi við skólann.

„Þetta er það eina sem við getum gert í stöðunni, “segir Ari Birgir og segir nemendurna ekki hafa órað fyrir því að þeir myndu eiga eftir að standa í þessum sporum.

Hann segir nemendur hafa verið vel upplýsta um gang mála af hálfu stjórnenda skólans, en engu að síður séu þeir óöruggir um sinn hag.

„Við erum í algjörri óvissu. Við erum ekki bara að berjast fyrir náminu okkar, heldur berjumst við fyrir skólanum,“ segir Ari Birgir.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka