„Á ekki lengur heima í Framsókn“

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Heiðar

„Það er niðurstaða mín að ég eigi ekki lengur heima í Framsóknarflokknum eins og hann hefur þróast,“ segir Guðmundur Steingrímsson, þingmaður framsóknarmanna, í samtali við mbl.is.

Guðmundur segir að Evrópumálin séu aðeins hluti af ástæðu þess að hann kýs að hverfa úr Framsóknarflokknum, en eins og kunnugt er hefur hann verið hlynntur viðræðum um inngöngu í Evrópusambandið. Forysta flokksins og flokkurinn sjálfur hafa hins vegar tekið afstöðu gegn inngöngu. Einnig spili þar inn í afstaðan til stjórnlagaráðs og almennt til frjálslyndra áherslna sem honum hafi verið umhugað um.

Hann segist ætla að útlista það frekar á morgun hvers vegna hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að honum sé ekki lengur vært í Framsóknarflokknum og hvernig hann sjái að öðru leyti fyrir sér pólitíska framtíð sína en hann mun ætla að starfa sem óháður þingmaður fyrst um sinn.

Samkvæmt heimildum mbl.is er ekki búist við að nýr stjórnmálaflokkur líti dagsins ljós strax heldur verði frekar í fyrstu um að ræða samtök fólks með einhverju fyrirkomulagi sem yfirgefið hefur Framsóknarflokkinn og jafnvel fleiri flokka og eigi meðal annars samleið í Evrópumálum.

Guðmundur á sem þekkt er ættir að rekja innan Framsóknarflokksins en bæði faðir hans og afi, Steingrímur Hermannsson og Hermann Jónasson, voru formenn flokksins og einnig forsætisráðherrar. Guðmundur tók sæti á Alþingi í þingkosningunum 2009 en hafði áður verið varaþingmaður Samfylkingarinnar frá kosningunum 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert