Töluvert hefur dregið úr misnotkun á litaðri olíu frá því að lagabreyting var gerð í október síðastliðnum en með þeim var gjaldskyldum aðilum gert óheimilt að selja litaða olíu í sjálfsafgreiðsludælum nema slík viðskipti ættu sér stað með sérstöku viðskiptakorti. Hjá ríkisskattstjóra telja menn að breytingarnar hafi greinilega haft þau fyrirbyggjandi áhrif sem að var stefnt.
Einungis liggja fyrir upplýsingar um fimm fyrstu mánuði ársins 2011 og skv. þeim er heildarsala á litaðri olíu um 37.687.345 lítrar. Fyrir sama tímabil ársins 2010 var salan um 45.427.714 lítrar. Heildarsala fyrstu sex mánuði ársins 2009 var þá 64.748.971 lítri.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hafa verið gerðar 609 athuganir, þ.e. bifreiðar stöðvaðar og sýni tekin úr eldsneytistanki, það sem af er ári. Í 28 tilvikum hefur skýrsla verið send ríkisskattstjóra. Til samanburðar voru gerðar 1.764 athuganir á síðasta ári og í 70 tilvikum var send skýrsla til skattstjóra.
Samkvæmt sömu upplýsingum hefur dregið úr misnotkun á litaðri olíu frá því að framangreind lagabreyting var gerð og Vegagerðinni gert kleift að draga úr eftirliti á vegum úti. Vegagerðin telur að bifreiðaeigendur hafi áttað sig á því að rekjanleikinn með notkun á litaðri olíu sé orðinn mun meiri en áður var, þ.e. yfirvöld eiga mun hægara um vik en áður að uppgötva misferli með notkun á litaðri olíu.