Óvíst er hvort stjórnmálaafl undir forystu Guðmundar Steingrímssonar, alþingismanns, nái flugi að mati stjórnmálafræðings. Eins og fram hefur komið hér á mbl.is hyggst Guðmundur segja skilið við Framsóknarflokkinn sem hann hefur setið fyrir á þingi og skoða í framhaldinu með að stofna nýjan stjórnmálaflokk.
Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði, bendir á að ekki verði séð að slíkur stjórnmálaflokkur hefði nægilega sérstöðu í pólitíska landslaginu hér á landi nema hann fengi til liðs við sig mjög öfluga frambjóðendur sem nytu persónulegs fylgis. Miðað við það sem Guðmundur hefði sagt um mögulegar áherslur slíkt stjórnmálaafls yrði það mjög á sömu nótum og Samfylkingin.
Hún segist aðspurð ekki eiga von á því að málið muni veikja Framsóknarflokkinn. Í raun sé úrsögn Guðmundar engar stórfréttir að hennar mati. Þá segir Stefanía flest benda til þess að staða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, sé sterk auk þess sem flokknum hafi verið nokkuð góðri siglingu undir hans forystu.