Ekki skilyrðislaus stuðningur

Guðmundur Steingrímsson alþingismaður þungt hugsi. Fyrir aftan hann eru Höskuldur …
Guðmundur Steingrímsson alþingismaður þungt hugsi. Fyrir aftan hann eru Höskuldur Þórhallsson og Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Guðmundur Steingrímsson alþingismaður segist ekki lofa skilyrðislausum stuðningi við ríkisstjórnina, en hann vilji verða að gagni. Hann styðji t.d. ekki að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, sem vilja draga umsókn Íslands um aðild að ESB til baka, komist til valda.

Guðmundur var í viðtali í Kastljósi á RÚV í kvöld. Hann var spurður hvort hann myndi styðja ríkisstjórnina.

Guðmundur sagði að hann hefði ekki fundið sig í stjórnarandstöðu. Hann vildi verða að gagni. Hann sagðist ekki ætla að lofa skilyrðislausum stuðningi við ríkisstjórnina enda væri hann ekki sáttur við allt sem hún væri að gera. Hann væri t.d. óánægður með hægagang í atvinnumálum. Hann minnti á að það væri ekki samstaða í ríkisstjórninni um aðildarumsókn að Evrópusambandinu, en hann sagðist eindregið þeirrar skoðunar að það ætti að ljúka aðildarviðræðum og leyfa þjóðinni síðan að velja hvort hún vildi samþykkja eða hafna samningi.

Guðmundur sagði að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn vildu að aðildarumsóknin yrði dregin til baka og þar af leiðandi gæti hann ekki stutt að þessir flokkar kæmust til valda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka