Ljóst er að langreyðar verða ekki veiddar á þessu ári hér við land. Ákveðið var í vor að fresta hvalveiðum að minnsta kosti fram á haust vegna aðstæðna í Japan eftir náttúruhamfarirnar þar í mars og liggur nú fyrir að ekkert verður veitt í ár.
Vefur Skessuhorns hefur eftir Gunnlaugi Fjólari Gunnlaugssyni, verkstjóra í Hvalstöðinni í Hvalfirði, að uppbyggingin í Japan eftir jarðskjálftana gangi hægt, en vonir standi til að ástandið þar verði orðið allt annað og betra næsta vor.
„Við lifum í voninni, erum þolinmóðir og bjartsýnir eins og við höfum verið, annars hefðum við ekki beðið í 20 ár eftir því að mega veiða hvalinn aftur. Nú förum við bara að undirbúa næstu vertíð, erum fjarri lagi búnir að gefa hvalveiðar upp á bátinn,” hefur vefurinn eftir Gunnlaugi.
Alls veiddust 148 langreyðar á
vertíðinni í fyrra. Þá er búið að veiða tæplega 50 hrefnur í ár.