„Þarna er með beinum hætti verið að auglýsa tæki til notkunar við lögbrot, því allur akstur utan vega er bannaður,“ segir Andrés Arnalds, fagmálastjóri hjá Landgræðslu ríkisins, um auglýsingu sem birtist í Bændablaðinu.,
Þar eru ákveðin gerð mótorhjóla auglýst undir þeim formerkjum að þau séu „nýjung í smalamennsku“. Meðal þess sem talið er upp hjólunum til tekna er að þau tæti ekki upp gróður. Þar með virðist gefið til kynna að í lagi sé að aka hjólunum yfir gróðurlendi, sem hinsvegar er bannað með lögum.
Færst hefur í vöxt undanfarin ár að bændur noti ökutæki eins og mótorhjól og fjórhjól við göngur og í smalamennsku. Andrés telur hinsvegar að þörf sé á vitundarvakningu meðal bænda um áhrif utanvegaaksturs á umhverfið.
„Þetta er mjög svæðisbundið, en göngur á vélfákum eru víða mikið tíðkaðar og eru sumstaðar jafnvel aðalsmalamátinn,“ segir Andrés.