Náðu ekki saman um lausn mála Kvikmyndaskólans

Svandís Svavarsdóttir, settur mennta- og menningarmálaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, settur mennta- og menningarmálaráðherra. Mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Niðurstaðan var í raun engin,“ segir Hilmar Oddsson, skólastjóri Kvikmyndaskóla Íslands, eftir fund kvöldsins með starfsmönnum menntamálaráðuneytisins og Svandísi Svavarsdóttur, settum menntamálaráðherra.

„Það var engin samstaða um lausn og því engin ein niðurstaða,“ segir Hilmar, en sjálfur setti hann fram hugmynd að lausn á fundinum að eigin sögn, sem ráðherra vildi ekki samþykkja.

Málið væri þó enn opið og aðspurður neitar hann því að tekið hafi verið af skarið á fundinum um að ekki verði kennt við skólann á þessari önn. Menntamálaráðuneytið mun að öllum líkindum boða annan fund í vikunni til að gera aðra tilraun til að leysa málið, en aðallega kom fram hjá embættismönnum í kvöld að námið og nemendurnir væru á ábyrgð skólans. Ef skólinn vildi aðstoð frá ráðuneytinu við að finna nemendunum nýjan farveg þá stæði það til boða, en skólinn yrði þá að óska eftir því.

Margir nemendanna eru nú lentir í erfiðri stöðu þar sem þeir eiga stutt eftir af námi sínum við skólann en fá ekki að taka síðustu önnina til að klára prófgráðu sína. Námið er hins vegar dýrt og nemendur margir búnir að leggja nokkrar milljónir í að borga skólagjöld og taka framfærslulán á meðan á náminu hefur staðið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka