„Jóhanna Sigurðardóttir er guðmóðir hins nýja flokks sem Guðmundur Steingrímsson ætlar að stofna,“ segir Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, í pistli á heimasíðu sinni í kvöld. Hann segir Guðmund vera að framkvæma það sem Jóhanna hafi sagt í ræðu á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar 29. maí síðastliðinn þar sem hún hafi boðist til þess að leggja flokkinn niður og stofna nýjan reyndist það nauðsynlegt til þess að laða að stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu í öðrum flokkum.
„Frá þeim tíma hefur stöðugt sigið meira á ógæfuhliðina fyrir ríkisstjórnina og höfuðmál Samfylkingarinnar, ESB-aðildarmálið. Efnislega er ekki unnt að velja vitlausari tíma en þann sem Guðmundur Steingrímsson velur til að hefja stjórnmálabaráttu á Íslandi undir merkjum ESB-aðildar. Þótt látið sé eins og það sé „málið“ er hitt sönnu nær að með skrefi sínu er Guðmundur að búa í haginn fyrir upplausn innan Samfylkingarinnar. Hann er að skapa nýjan kost fyrir þá innan hennar sem vilja ekki starfa með vinstri-grænum. Jóhanna Sigurðardóttir ætlaði einmitt að ögra samstarfsflokki sínum með ræðunni 29. maí,“ segir Björn.