„Að sjálfsögðu þarf að taka allan viðbótarkostnað til skoðunar og okkar fjármálaskrifstofa mun fara yfir áætlaðan kostnað vegna þessa samnings. En þetta mun ekki sliga sveitarfélagið,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Sveitarfélögin standa misvel að vígi til að mæta launahækkun leikskólakennara, sem samningar náðust um á laugardag. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir ljóst að sveitarfélögin þurfi að bregðast við viðbótarútgjöldum með því annaðhvort að skera niður þjónustu eða auka tekjur sínar. Það sé hinsvegar undir hverju og einu sveitarfélagi komið hvaða leið verði farin til að fjármagna launahækkanirnar.
„Þetta er það sem við þurfum að skoða, en á sama tíma gerum við okkur grein fyrir að foreldrar eru ekki síður í erfiðri stöðu en sveitarfélögin. Þetta eru staðreyndirnar en það þýðir lítið annað en að vinna saman að lausn á þessu. Leikskólakennarar vinna mjög mikið starf og það var orðinn óeðlilega mikill launamunur milli kennarastétta. Við höfum fullan skilning á að það þurfi að leiðrétta það.“
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, segir að áhrifin á fjárhag bæjarins séu ekki ljós þar sem nákvæmar prósentutölur launahækkunar hafi ekki verið gefnar upp. „Vonandi er þetta á svipuðum nótum og það sem er að gerast á almenna markaðnum, en til lengri tíma gæti þetta orðið þyngra ef til stendur að jafna launin eins og manni heyrist. Almennt er það svo að kjarasamningarnir taka í budduna hjá okkur sem þýðir að við þurfum að skoða hvernig við getum mætt þeim. Við erum einmitt í því þessa dagana að finna út hvernig við getum mætt þessum áhrifum því það þarf að horfa í hverja einustu krónu í rekstri sveitarfélaganna í dag.“