„Vandamálið er að einhverjum hefur dottið í hug að leigja þetta húsnæði á Seltjarnarnesi til 25 ára með óuppsegjanlegri leigu,“ segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra um eldra húsnæði Landlæknis sem stendur autt með óuppsegjanlegum leigusamningi. Greiða þarf 24 milljónir króna á ári vegna þessa.
Guðbjartur segir skelfilegt að lifa við þetta en reynt verði að semja um málið. Hann bendir jafnframt á að fermetraverð í Heilsuverndarhúsinu við Barónsstíg sé töluvert lægra og því verði af flutningi Landlæknisembættisins hagræðing til lengri tíma litið, en um mánaðamótin síðustu hófst starfsemi sameinaðs embættis Landlæknis og Lýðheilsustöðvar í húsinu.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir sárgrætilegt að horfa upp á bruðl stjórnvalda í málinu.