Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sagði á ársfundi Byggðastofnunar í dag að hún hefði ákveðið að endurskoða lög um stofnunina. Hún sagði koma til greina að sameina í ein lög ákvæði um Ferðamálastofu, Byggðastofnun og Nýsköpunarmiðstöð, en þó þannig að þessar stofnanir yrðu áfram til.
Katrín sagði í ræðu sinni á fundinum að lánastarfsemi Byggðastofnunar hefði ekki farið varhluta af þeim þrengingum sem gengið hafa yfir íslenska bankakerfið. Stofnunin hefði á árunum 2009 og 2010 lagt 5,8 milljarða á afskriftareikning. Þetta hefði leitt til þess að eiginfjárhlutfallið var neikvætt um 2,4% í árslok 2010.
Katrín ákvað í febrúar að skipa nefnd til að fjalla um framtíð Byggðastofnunar. Megintillaga nefndarinnar er að ráðist verði í heildarendurskoðun á lögum um Byggðastofnun. Katrín sagði að þetta yrði gert.
„Þar verður lánastarfsemin veigamikið úrlausnarefni, sem við verðum að glíma við og komast til botns í áður en langt um líður. Meðal annars þarf að ákveða hvort Byggðastofnun verði áfram fjármálafyrirtæki eða að núverandi fjármálastarfsemi þurfi að þróa inn á aðrar brautir. Þörfin fyrir þessa lánastarfsemi á efnahagslega köldum svæðum er svo sannarlega til staðar og skjóta þarf undir hana styrkari stoðum. Þróunarstarfsemi Byggðastofnunar verður einnig skoðuð og m.a. metin út frá þeim grundvallarhugmyndum um framtíðarfyrirkomulag stoðkerfis atvinnulífsins, sem ráðuneytið hefur mótað síðustu misserin í samstarfi við stofnanirnar, atvinnuþróunarfélög og viðskiptavini stoðkerfisins. Þær hugmyndir hverfast um að einfalda stoðþjónustuna og gera hana skilvirkari.
Þörf fyrir aukinn sveigjanleika, einföldun og styrkingu stoðkerfis atvinnulífsins hefur verið augljós í fjöldamörg ár. Viðskiptavinirnir, sem fyrst og fremst eru lítil og meðalstór fyrirtæki vita ekki alltaf hvert á að leita og hvaða þjónusta er í boði á hverjum stað. Til að bæta úr þessu höfum við rætt um mikilvægi þess að til verði ein gátt að þjónustu stoðkerfisins. Verkaskipting þarf að vera skýr og samstarfið að ganga snurðulaust.
Stofnanir iðnaðarráðuneytisins, Byggðastofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Ferðamálastofa, hafa allar á sinni könnu veigamikla stoðþjónustu. Síðustu misserin hafa þær hægt og bítandi færst nær hver annarri. Þannig hafa bæði Nýsköpunarmiðstöð og Ferðamálastofa verið í nánu og farsælu verkefnasamstarfi við Byggðastofnun.
Þetta samstarf vil ég efla og festa í formi. Til greina kemur að fella starfsemi allra þriggja í ein lög, án þess að einkenni hvers og eins tapist. Þannig verði áfram til Ferðamálastofa, Byggðastofnun og Nýsköpunarmiðstöð sem öll vinna að sömu markmiðum í nánu samstarfi en viðhalda sérþekkingu sinni og sérstöðu. Nýskipunin felst því fyrst og fremst í því að mynda samstæða heild, sem hefur meiri sveigjanleika og meira afl til að bregðast við vaxandi þörfum atvinnulífsins fyrir endurnýjun og nýsköpun.
Þar er hvorki verið að vísa til þess að leggja niður tilteknar stofnanir né fækka starfsfólki þeirra. Þvert á móti er gengið út frá því að sú starfsemi sem er til staðar innan þessara stofnana sé mikilvægur póstur í stoðkerfi atvinnulífs á vegum ráðuneytisins. Þannig er fremur lagt upp með að starfsmenn stofnananna geti unnið sameiginlega að stórum verkefnum og samnýtt krafta sína og sérþekkingu, má þar nefna orkuskiptaáætlun í samgöngum sem dæmi. Við erum einfaldlega að samþætta stoðkerfið svo það sé betur í stakk búið til að takast á við krefjandi verkefni þvert á málaflokka. Stofnanirnar muni áfram sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin en notendur þjónustunnar verði varir við að kerfið verði samhæfðara, skilvirkara og einfaldara með uppbroti á ákveðnum starfsþáttum,“ sagði iðnaðarráðherra.