„Það sem af er þessum mánuði er álagning á bensín sú hæsta á árinu. Samanborið við meðalálagningu síðasta árs leggja félögin nú um fimm krónum meira á hvern lítra,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda.
Heimsmarkaðsverð hefur lækkað verulega síðasta mánuðinn en sú lækkun hefur ekki skilað sér til neytenda hér á landi. Fyrstu sjö mánuði ársins var álagningin sambærileg við síðasta ár en er nú töluvert hærri þótt tekið sé tillit til vísitölu neysluverðs.
„Félögin hafa verið að taka um 29 krónur af hverjum seldum lítra en taka nú um 34 krónur,“ segir Runólfur og bætir við að lækkun um eina krónu þýði um 350 milljónir krónur í vasa neytenda yfir árið.