„Við fundum auðvitað fyrir honum. Hann var mjög sterkur. Þetta var svona langvarandi miðað við það sem maður á að venjast. Það sem maður hefur upplifað hingað til eru svona hvellir en mér fannst þessi standa svolítið lengi,“ segir Skafti Jónsson, sendiráðunautur í sendiráði Íslands í Washington í Bandaríkjunum.
Jarðskjálfti, sem mældist 5,9 stig, varð á austurströnd Bandaríkjanna í dag, en upptök hans voru 54 km frá Richmond í Virginíu og 139 km frá Washington. Var Pentagon, bygging bandaríska varnarmálaráðuneytisins í borginni, rýmd í kjölfar jarðskjálftans sem og hluti Hvíta hússins og bandaríska þinghússins. Þá voru nokkrir skýjakljúfar rýmdir í New York þar sem skjálftinn fannst greinilega.
„Við erum hérna uppi á fimmtu hæð í húsi sem skókst mjög og það var bara rýmt eins og skot. Við vorum bara sett hér út á plan og þar var fólk bara að bera saman bækur sínar og ósköp rólegt,“ segir Skafti. Fólk hafi þó fljótlega fengið að snúa aftur inn í bygginguna.
Aðspurður segist hann ekki vita til þess að neitt eignatjón hafi orðið eða meiðsl á fólki vegna jarðskjálftans, hvorki íslenskum ríkisborgurum né öðrum, eftir því sem hann kæmist næst.
Bandaríska jarðeðlisfræðistofnunin sagði, að skjálftinn væri sá öflugasti, sem orðið hefði í Virginíu frá því í maí 1897 þegar jafnstór skjálfti varð í Gilessýslu.
Svo virðist sem byggingar hafi staðið skjálftann af sér. Múrhúð hrundi af veggjum húsa í Washington og turnspírur, sem höfðu skemmst áður, hrundu af dómkirkjunni í borginni. Kirkjunni var lokað í kjölfarið á meðan skemmdir voru kannaðar nánar.