Ættu að læra eitthvað af hruninu

Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.

„Stjórnendur Landsbankans mættu hafa lært eitthvað af hruninu, og ég hélt að í kjölfar hrunsins myndu þeir endurskoða þá áhættusömu lánastefnu sem sá banki og aðrir stunduðu fyrir hrun, jafnt til sjávarútvegs sem og annarra," segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis.

Landsbanki Íslands birti í gær afar gagnrýna umsögn um fiskveiðifrumvarp sjávarútvegsráðherra. Segir bankinn m.a. að endurskoða þurfi frumvarpið frá grunni þar sem tillögur þess muni fela í sér skerðingu á hagkvæmni í sjávarútvegi og rýra lífskjör í landinu.

„Það er spurning hver horfir á silfrið," segir Lilja. „Í mínum huga hefur þetta kerfi ekki skilað því til þjóðarinnar sem eðlilegt mætti teljast varðandi afrakstur í greininni, heldur hefur afraksturinn skilað sér til fárra."

Þá finnst Lilju einkennilegt að í útreikningum Landsbankans sé ekki gert ráð fyrir greiðslustreymi frá sjávarútvegsfyrirtækjum til bankans eftir 15 ár.

„Ég veit hreinlega ekki fyrir hverju bankinn gerir ráð fyrir í svona ótrúlegum útreikningum með því að gefa sér þessar forsendur. Þó svo að í þessu frumvarpi sé gert ráð fyrir nýtingarsamningum til 15 ára, reikna menn nú með að áfram verði haldið að gera út á Íslandsmiðum," segir Lilja.

Bankakerfið sjúkt fyrir hrun

Bankinn gagnrýnir einnig harðlega þá takmörkun nýtingarréttar sem samþykkt frumvarpsins hefði í för með sér, sem og bann við framsali, bann við veðsetningu og aukin völd sjávarútvegsráðherra við úthlutun aflaheimilda. Lilja telur þetta ekki vera réttmæta gagnrýni, og segist binda vonir við það að fjármálastofnanir fari nú að byggja sín viðskipti og útlánastarfsemi á heilbrigðum grunni.

„Ég held að bankakerfið hafi verið orðið mjög sjúkt fyrir hrun og menn verði einfaldlega að horfast í augu við að menn fóru of glæfralega í veðsetningu hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og víðar, og að nauðsynlegt sé að stokka upp spilum, en ekki að berjast fyrir að halda óbreyttu kerfi og þar með hunsa afleiðingar hrunsins."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert