Fangelsi fyrir hótanir og árásartilraun

Húsnæði Héraðsdóms Austurlands.
Húsnæði Héraðsdóms Austurlands.

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt 28 ára gamlan karlmann í 18 mánaða fangelsi fyrir ýmis brot, þar á meðal fyrir að hóta lögreglumönnum lífláti og fyrir að kasta steini í átt að lögreglumanni. Maðurinn var hins vegar sýknaður af ákæru fyrir manndrápstilraun.

Maðurinn, sem býr á Höfn í Hornafirði, var í maí á þessu ári dæmdur í 9 mánaða fangelsi fyrir að hóta lögreglumönnum lífláti en á sama tíma afplánaði hann 5 mánaða fangelsisdóm fyrir þjófnað. Maðurinn var látinn laus 19. maí og að sögn lögreglu byrjaði hann í mjög alvarlegri brotastarfsemi svo til strax. Einnig byrjaði hann að neyta áfengis ótæpilega.

Maðurinn var síðan handtekinn 24. maí  vegna gruns um akstur án ökuréttinda og undir áhrifum áfengis. Segir lögregla að maðurinn hafi valdið stórhættu með akstrinum, næstum ekið á tvo bíla og lok ók hann á stórt járnrör og festi bílinn.

Eftir handtökuna hótaði maðurinn fimm lögreglumönnum og lækni líkamsmeiðingum og lífláti og kastaði steini að einum lögreglumanninum. Þá sótti hann sporjárn, að sögn til að reyna að drepa annan lögreglumann. 

Maðurinn segist vera smitaður af lifrarbólgu C og HIV og hótað i því óspart að smita lögreglumennina af þessum sjúkdómum.

Héraðsdómur taldi ekki að ákæruvaldinu hefði tekist að sanna, að maðurinn hefði ætlað að drepa lögreglumanninn með sporjárninu. Maðurinn hafi ekki reynt að grípa til sporjárnsins þegar lögreglumennirnir höfðu afskipti af honum. Hann hafi hins vegar gripið upp stein sem hann síðan henti.

Maðurinn á að baki samfelldan brotaferil frá árinu 2000 og hefur margoft setið í fangelsi á því tímabili.  Geðlæknir og sálfræðingur, sem skoðuðu manninn, voru sammála um að hann væri sakhæfur.  Þá sögðu þeir nauðsynlegt, að maðurinn héldi bindindi og geri hann það sé hann ekki hættulegur.

Héraðsdómur segir í niðurstöðu sinni, að telja verði að í ljósi þess að maðurinn hafi fram til þessa ekki sýnt neinn árangur við að halda sig frá neyslu áfengis og að atburðir þeir, sem mál þetta fjalli um, sýni svo ekki verði um villst að maðurinn geti á fáum klukkutímum orðið mjög háskalegur, séu efni séu til að skilorðsbinda refsinguna.

„Verður að telja að þurfi ákærði sérhæfða læknis- eða meðferðarþjónustu vegna fíknisjúkdóms síns, þunglyndis eða kvíða verði fangelsisyfirvöld einfaldlega að veita honum slíka þjónustu," segir í niðurstöðu dómsins. 

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því hann var handtekinn 24. maí. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert