Funduðu um fjárfestingar

Huang Nubo.
Huang Nubo.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Huang Nubo, stjórnarformanni kínverska fjárfestingarfyrirtækisins Zhongkun Group. Greindi Nubo þar ráðherranum frá fyrirætlunum fyrirtækisins um að fjárfesta í umhverfistengdri ferðaþjónustu á Íslandi, og taka þátt í uppbyggingu ferðaþjónustu í samstarfi við íslensk stjórnvöld.

Gerð er grein fyrir áhuga Nubu í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Segir þar að fyrirtæki Nubo hafi áform um hótelrekstur, bæði í Reykjavík og á Norðausturlandi. Um þessar mundir vinni fyrirtækið að verkefni fyrir norðan sem m.a. tengdust Grímsstöðum á Fjöllum. Verði þær fyrirætlanir að veruleika hyggist fyrirtækið leggja sitt af mörkum, í samstarfi við stjórnvöld, til að tengja saman meginsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs við land þjóðgarðsins í Jökulsárgjúfrum.

„Það færi vel saman við áherslur fyrirtækisins um náttúruvernd og umhverfistengda ferðaþjónustu. Ennfremur kom fram að fyrirtækið er reiðubúið til að afsala sér vatnsréttindum í Jökulsá á Fjöllum og að verkefnið yrði að öllu leyti unnið í náinni samvinnu við íslensk stjórnvöld og heimamenn.

Utanríkisráðherra sagðist fagna erlendri fjárfestingu og uppbyggingu í ferðaþjónustu, sér í lagi á landsbyggðinni, en m.a. lægi fyrir að sveitarfélagið Norðurþing hefði tekið vel í hugmyndir fyrirtækisins. Það þyrfti þó að skoða hvert verkefni vandlega í samvinnu allra hlutaðeigandi aðila og hafa náið samráð um næstu skref. Til þess væru íslensk stjórnvöld svo sannarlega reiðubúin,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Huang Nubo kom til Íslands í fyrrahaust á ljóðahátíð sem hann stóð fyrir í Norræna húsinu með Kínversk-íslenska menningarfélaginu en hann er styrktaraðili félagsins.

Huang og Hjörleifur Sveinbjörnsson þekkjast frá fornu fari, gengu á norðurpólinn í vor í hópi manna, ásamt sonum sínum. Áður hafði Huang, sem er þjálfaður fjallgöngumaður, farið á suðurpólinn og gengið á sjö hæstu tinda heims.

Huang er stjórnarformaður Beijing Zhongkun Investment Group, sem á tvö dótturfélög í Bandaríkjunum. Hann var í 161. sæti á lista Forbes yfir 400 ríkustu einstaklinga í Kína sem birtur var í lok síðasta árs. Þar var verðmæti eigna hans reiknað sem 890 milljónir dala, eða jafnvirði nær 102 milljarða króna.

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert