„Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir. Aðgerðir til handa skuldsettum heimilum munu brenna upp á báli verðbólgunnar,“ segir Guðmundur Andri Skúlason, talsmaður samtaka lánþega, spurður um áhrif verðbólguskotsins á skuldastöðu heimilanna.
Sem kunnugt er hefur verðbólgan farið af stað og má nefna að Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, lýsir því yfir í samtali við Morgunblaðið í dag að fyrirtæki bíði í lengstu lög með að hækka vörur. Undirliggjandi þrýstingur sé á hækkanir.
En hvernig metur Guðmundur Andri tóninn í fólki?
„Hann er dálítið örvæntingarfullur. Við vöruðum forsvarsmenn verkalýðsforystunnar við afleiðingum þess að hækka laun án þess að innistæða væri fyrir því. Guðmundur Gunnarsson, þáverandi formaður Rafinaðarsambandsins, svaraði sjónarmiðum okkar með þjósti. Við bentum á að mesta kjarabótin fælist í því að ráðast að rót vandans og takast á við skuldavandann.
Guðmundur svaraði þeim sjónarmiðum með miklum hroka og skrifaði pistil á vefinn þar sem inntakið var að við ættum ekki að tjá okkur um hluti sem við vissum ekkert um. Við bentum á að ef laun yrðu hækkuð myndu vörur hækka í kjölfarið og verðbólgan fara af svað.“
Guðmundur Andri gefur lítið fyrir skjaldborgina margumtöluðu.
„Það þarf að skipta um gír ef tryggja á hagsmuni fólksins í landinu. Það er ekki hægt að standa í þessu lengur. Það verður að taka á skuldavandanum,“ segir Guðmundur Andri.