„Uppgjör fyrir fyrstu sex mánuði ársins sýnir að undirliggjandi rekstur Orkuveitu Reykjavíkur er að snarbatna,“ segir Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður OR, um stöðu fyrirtækisins og bendir á að gengissveiflur þurrki út hagnað fyrirtækisins. Hann segir vaxtahækkanir ekki ógna OR í bili.
Eins og komið hefur fram varð 3,8 milljarða tap af rekstri Orkuveitunnar á fyrri helmingi ársins. Það jafngildir tæplega 21 milljón króna tapi á dag, frá 1. janúar til 30. júní, og hartnær einnar milljónar krónu tapi á klukkustund.
Það er mikil breyting frá 5.118 milljóna króna hagnaði á sama tímabili í fyrra.
Haraldur Flosi skýrir sveifluna með gengisbreytingum og bendir á að í fyrra hafi fyrirtækið hagnast um 10 milljarða króna vegna hagstæðrar gengisþróunar, en nú tapað sambærilegri upphæð vegna veikingar krónunnar.
„Það eru fyrst og fremst bókhaldslegar stærðir sem valda því að það er tap á rekstrinum,“ segir Haraldur Flosi.
Fylgjast grannt með þróun vaxta
Hann kveðst ekki óttast áhrif vaxtahækkana á erlendum lánamörkuðum á afkomu fyrirtækisins í bráð.
„Ég óttast ekki vaxtahækkanir í augnablikinu vegna eðlis þeirra lánasamninga sem Orkuveitan hefur gert. Hitt er ljóst að miklar vaxtahækkanir myndu hafa veruleg áhrif á fyrirtækið og þá á ég fyrst og fremst við erlend lán.“
En er tilefni til þess að hafa áhyggjur af Orkuveitunni?
„Nei. Menn ættu að vera bjartsýnir. Það er búið að taka til í rekstrinum og við höfum ástæðu til að ætla að þessi rekstur muni rétta kútnum. Það má í því sambandi vísa í uppgjörið. Í því kemur fram að undirliggjandi rekstur er að batna verulega sem þýðir að við höfum getu til að borga af lánum.“
Aðspurður hvernig hann svari gagnrýni á ummæli fulltrúa Orkuveitunnar um tap af rekstri Perlunnar og meint neikvæð áhrif þeirra á áhuga fjárfesta svarar Haraldur Flosi því til að öllum megi vera ljóst að OR „hafi ekki miklar tekjur af þessu stóra mannvirki“. Fjárfestar með frjóar hugmyndir geti hins vegar fundið tekjumöguleika. Það sé ekki hlutverk Orkuveitunnar. Hann kveðst bjartsýnn um að fjárfestar sýni Perlunni áhuga.