Í umsögn, sem Samtök atvinnulífsins, Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva hafa sent Alþingi um sjávarútvegsfrumvarp ríkisstjórnarinnar, segir að markmið frumvarpsins sé m.a. að kollvarpa rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, stórauka skattheimtu, auka pólitísk afskipti af greininni og grafa undan ábyrgri og sjálfbærri nýtingu fiskistofna.
Segir í umsögninni, að verði frumvarpið að lögum muni sjávarútvegsfyrirtækin gjaldfæra samstundis allar eignfærðar aflaheimildir. Þetta muni lækka eigið fé greinarinnar um 180 milljarða króna og leiða til fjöldagjaldþrota í greininni.
Einnig hafi frumvarpið þau áhrif að lækka mögulegar skatttekjur ríkissjóðs um marga milljarða króna.
Þá standist upptaka ríkisins á aflaheimildum ekki ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd eignaréttarins. Réttindin sem felist í aflaheimildum verði því ekki tekin af fyrirtækjunum bótalaust.