„Fyrstu viðbrögð ríkisskattstjóra eru þau að ríkisskattstjóri mun fara eftir þessum ábendingum [Persónuverndar],“ segir Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri.
Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu, að það samræmist ekki sjónarmiðum laga að koma á framfæri nafnlausum upplýsingum um hugsanleg lagabrot annarra í gegnum vefinn.
Niðurstaða Persónuverndar er sú að það samrýmist ekki grundvallarreglum um vandaða vinnsluhætti að stjórnvöld hvetji menn með þeim hætti til að koma sín persónuupplýsingum í skjóli nafnleyndar.
Aðspurður út í niðurstöðuna segir Skúli að það sé ekki rétt að ríkisskattstjóri hafi hvatt til þess að senda inn upplýsingar heldur hefur mönnum verið gefinn kostur á því að senda inn upplýsingar í gegnum vefinn.
„Á hinn bóginn gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við að sendar séu ábendingar með örðum hætti,“ segir Skúli og bætir við að Persónuvernd kjósi að hafa þennan háttinn á og að embætti ríkisskattstjóra muni gera fjármálaráðuneytinu grein fyrir málinu.
Skúli segist ekki vilja tjá sig frekar um niðurstöðu Persónuverndar að svo stöddu.