„Þetta eru vinnubrögð og afstaða til rökræðu og samfélagsmála sem dæmir sig sjálf,“ segir Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, aðspurður um afstöðu Landssamtaka sauðfjárbænda til greinaskrifa hans í Fréttablaðinu.
Eins og rakið hefur verið á mbl.is hefur formaður Landssamtaka sauðfjárbænda (LS) tilkynnt rektor Háskóla Íslands að samtökin séu hætt við að kaupa vinnu af Hagfræðistofnun HÍ varðandi stefnumótun í sauðfjárrækt. Ástæðan er óánægja bænda með skrif Þórólfs um framleiðslu og verðlagningu kindakjöts.
„Ég hef í blaðagreinum gagnrýnt háa og óskilvirka styrki til sauðfjárbænda, útflutning sauðfjárbænda á lambakjöti, á sama tíma og kjöt skortir á markaði, og verðhækkanir sauðfjárbænda á afurðum til íslenskra neytenda. Ég hef leitast við að setja gagnrýni mína fram málefnalegan hátt.
Kjörnir fulltrúar sauðfjárbænda kjósa að þegja um röksemdirnar en fara þess í stað á fund yfirmanns míns væntanlega til að fá mér vikið úr starfi. Þegar það tekst ekki grípa þeir til einhverskonar viðskiptaþvingana gagnvart samstarfsmönnum mínum. Þetta eru vinnubrögð og afstaða til rökræðu og samfélagsmála sem dæmir sig sjálf,“ segir Þórólfur.
Bændur óánægðir með skrif prófessors