Stjórn SAMFOK, samtaka foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, segjast undrast ummæli Jóns Gnarr, borgarstjóra Reykjavíkur, í morgunútvarpi Rásar 2 í gær þar sem borgarstjóri sagði að íslenskt skólakerfi væri ekki nógu sveigjanlegt og því væri farsælast að leggja niður skólaskyldu í stað þess að neyða börn til að fást við það sem þau hafa ekki áhuga á.
Í ályktun segist stjórn SAMFOK telja óábyrga umræðu af þessu tagi varhugaverða, sérstaklega um þessar mundir þegar skólastarf sé að hefjast eftir mikinn niðurskurð í skólakerfinu og framundan séu viðkvæm sameiningarferli skóla. Ummæli af þessu tagi séu stórkostleg vanvirðing við fagstarf kennara og geti beinlínis verið skaðleg. Óvissa hjá skólastjórnendum, kennurum, nemendum og foreldrum fyrir komandi skólaár sé næg án þess að borgarstjóri geri sér að leik að auka á hana.
„Stjórn SAMFOK harmar að borgarstjóri hafi átt erfiða grunnskólagöngu en nú er hann æðsti yfirmaður skólamála í Reykjavík og getur þessvegna ekki leyft sér að tala óábyrgt um málefni grunnskólanna sem eru bundnir í landslög líkt og skólaskylda. Nær væri að borgarstjóri veitti meira fé í rekstur skóla borgarinnar svo þeir geti með sóma sinnt þörfum allra barna og komið í veg fyrir að þau yfirgefi grunnskólann með viðlíka reynslu að baki og Jón Gnarr," segir í ályktuninni.