Ekki óvænt að fjármálastofnanir hrökkvi í vörn

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

Ólína Þorvarðardóttur, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, segir að það komi sér ekki á óvart að fjármálastofnanir hrökkvi í vörn vegna fyrirhugaðra breytinga á fiskveiðistjórninni.

„Fjármálastofnanirnar hafa auðvitað stundað óhóflegar veðsetningar á aflaheimildum frá því að kvótakerfinu var komið á. Við vissum það þegar við fórum að boða þessar breytingar að það væru hagsmunaöfl í landinu sem myndu krækja höndum saman til þess að standa í vegi fyrir þeim, og fjármálastofnanir eiga auðvitað hagsmuna að gæta,“ segir Ólína.

Hún segir jafnframt að umsögn Landsbankans um frumvarpið sé ein af þeim umsögnum sem eðlilegt er að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þingsins hafi til hliðsjónar þegar fjallað verður um frumvarpið í september. „Frumvarpið má að ósekju taka breytingum og það er ekki hafið yfir gagnrýni. Ég hef sjálf gert athugasemdir við átta greinar þessa frumvarps og tel að það þurfi að taka gagngerum breytingum,“ segir Ólína að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert