Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að Landsvirkjun greiði 3 milljarða í arð til ríkissjóðs. Jafnframt er gert ráð fyrir að sala eigna skili 7 milljörðum í ríkissjóð.
Landsvirkjun hefur ekki greitt út arð frá árinu 2007 þegar fyrirtækið greiddi 500 milljónir í arð til ríkissjóðs. Eftir hrunið, haustið 2008, var tekin ákvörðun um að hlífa Landsvirkjun við arðgreiðslum vegna mikils titrings á lánamörkuðum. Eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar var 34% um síðustu áramót.
Stjórnarflokkarnir hafa ekki lokið umfjöllun um fjárlagafrumvarpið, en reiknað er með að það verði lagt fram með halla upp á 16-20 milljarða. Enn er verið að takast á um hvernig afla eigi meiri tekna með skattahækkunum. Einstakir þingmenn hafa gert fyrirvara við frumvarpið varðandi sparnað í velferðarmálum. Þá eru uppi kröfur hjá sumum þingmönnum um meiri niðurskurð. Endanlegur rammi fjárlaga á að vera klár í næstu viku og í framhaldinu þurfa ráðuneytin að ljúka við greinargerð frumvarpsins. Frumvarpið verður lagt fram 1. október.