Lögreglan undanþegin úrskurði

Sigrún Jóhannesdóttir
Sigrún Jóhannesdóttir Ásdís Ásgeirsdóttir

Sigrún Jóhannesdóttir, forstjóri Persónuverndar segir að nýr úrskurður stofnunarinnar um tilkynningarhnappa byggi á þeim röksemdum að loforð stjórnvalda um nafnleynd séu mjög villandi enda sé hægt að rekja allar ábendingar sem komi í gegnum heimasíður til þeirra sem senda þær.

Eins og mbl.is greindi frá í gær þá segir í úrskurði Persónuverndar að það samræmist ekki sjónarmiðum laga, að opinberar stofnanir, þar á meðal embætti ríkisskattstjóra og Vinnumálastofnun, veiti almenningi kost á að koma á framfæri nafnlausum upplýsingum um hugsanleg lagabrot annarra.

Aðspurð út í tilkynningahnappa annarra opinberra stofnanna, svo sem lögreglunnar, segir hún að í réttarríkinu hafi lögreglan allt annað hlutverk heldur en önnur stjórnvöld. „Fíkniefnalögreglan hefur leyfi til þess að hafa hnapp. Það er munur á lögreglu og venjulegum stjórnvöldum vegna þess að lögreglunni er falið að rannsaka og upplýsa um lagabrot.“

Hún segir að starfsemi lögreglunnar sé að nokkru leyti undanskilin lögum um persónuvernd.

Spurð út í málefni ríkisskattstjóra, segir hún að ríkisskattstjóri starfi eftir skýrum reglum og að hann hafi mjög afmarkað hlutverk. „Ríkisskattstjóri er ekki lögregla.“

„Allt sem snýr að barnavernd erum við með alveg sér-lög um, við höfum ekki fjallað um ábendingar til barnaverndarnefndar,“ segir Sigrún og bætir við að það sé skýrt tekið fram í barnaverndarlögum að þegar tilkynnt sé um athæfi gagnvart börnum ríki ekki leynd.

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, sagði við mbl.is gær að það væri ekki rétt að embættið hafi hvatt til þess að senda inn upplýsingar heldur hafi mönnum verið gefinn kostur á því að senda inn upplýsingar í gegnum vefinn.

Aðspurð út ummæli Skúla sagði hún að þetta væri allt spurning um túlkun og að þetta væri úrskurður Persónuverndar. „Í þessum nýjustu málum erum við að fjalla almennt um það þegar stjórnvöld hvetja fólk til að nálgast sig í skjóli nafnleyndar, það er fyrst og fremst þessi hvatning sem Persónuvernd telur ekki vandaða vinnuhætti.“ 

Persónuvernd.
Persónuvernd.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert