Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, segir umsögn Landsbankans um sjávarútvegsfrumvarp ríkisstjórnarinnar flytja mjög alvarleg tíðindi.
„Frumvarp ríkisstjórnarinnar felur bókstaflega í sér að það er verið að veikja í fyrsta lagi stöðu Landsbankans, sem er banki í eigu ríkisins og þar með þjóðarinnar, og í öðru lagi er ekki síður alvarlegt að það er verið að veikja stöðu sjávarútvegsins sjálfs,“ segir Einar. Stjórnarþingmenn beri mikla ábyrgð í málinu með því að hafa samþykkt frumvarpið, ekki síst ráðherrarnir sem sömdu það.
„Þetta frumvarp var ekki bara skrifað af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heldur komu auk hans með beinum hætti forsætisráðherrann, fjármálaráðherrann og velferðarráðherrann að gerð frumvarpsins. Þessir ráðherrar bera mjög mikla ábyrgð í þessum efnum,“ segir Einar. Þeir hafi skrifað frumvarp sem leiði til rýrnunar eigna ríkisins um 25 milljarða króna og hljóti því að þurfa að huga að pólitískri stöðu sinni.