Forsvarsmenn Landsbankans lýsa yfir vonbrigðum með viðbrögð formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis við umsögn bankans um fyrirliggjandi frumvarp um breytingar á stjórnun fiskveiða. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá bankanum.
„Óskað var eftir umsögn bankans um áhrif breytinganna á lán til fyrirtækja í sjávarútvegi. Þeir sem eru beðnir um að skila inn umsögn um lagafrumvarp í erfiðum álitamálum, þar sem skoðanir eru skiptar, hljóta að eiga þá kröfu að um þá umsögn sé fjallað með málefnalegum hætti.
Í umsögninni fjallar Landsbankinn um mögulegt tap vegna tiltekinna ráðstafana, að gefnum ákveðnum forsendum og setur einnig fram þá ályktun sérfræðinga bankans, að mun erfiðara verði fyrir nýja aðila að komast að í útgerð en nú er og hefur þó mörgum þótt nóg um.
Bankinn gætir varfærinna sjónarmiða við mat á útlánum í dag og einnig í umsögn sinni um lagafrumvarp um stjórn fiskveiða. Landsbankinn lítur á málið út frá hagfræðilegum og viðskiptalegum sjónarmiðum og telur að fyrirliggjandi frumvarp geri lánveitingar til sjávarútvegs mun áhættusamari en þær eru nú. Stjórnendur bankans telja það skyldu sína að benda á þá áhættu.
Þessi niðurstaða er ítarlega rökstudd með tilliti til nýtingartíma, framsals aflaheimilda, veðhæfni aflaheimilda og annarra eigna og meðferðar fullnustueigna. Lánakjör margra sjávarútvegsfyrirtækja munu líklegast versna vegna þess að tryggingar fyrir lánum verða lakari og svigrúm útgerða til að gera nauðsynlegar breytingar í rekstri, fjárfesta og hagræða, verður fyrirsjáanlega mun þrengra en nú er.
Starfsmenn Landsbankans hafa lært af hruninu. Útlánareglur Landsbankans hafa verið endurskoðaðar frá grunni og markvisst hefur verið dregið úr áhættu í lánveitingum undanfarin ár. Núverandi stjórnendur bankans stunda varfærna lánastarfsemi.
Annar lærdómur sem dreginn hefur verið er að rökstudd gagnrýni er af hinu góða og að málefnaleg umræða verður að fá meira svigrúm. Þessa hugsun hafa stjórnendur innleitt í bankanum og stjórnmálamenn þurfa líka að hafa þetta í huga. Á þennan þátt var rækilega bent í Rannsóknarskýrslu Alþingis," segir í yfirlýsingu frá Landsbankanum.