Ábendingar spöruðu 150 milljónir

Vinnumálastofnun hefur sparað um 150 milljóna kr. greiðslur á ári sem er árangur rannsókna sem settar voru í gang í kjölfar ábendinga um bótasvik sem sendar voru inn á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Persónuvernd hefur komist að þeirri  niðurstöðu, að það samræmist ekki sjónarmiðum laga að koma á framfæri nafnlausum upplýsingum um hugsanleg lagabrot annarra í gegnum vefinn. Á vefsíðu Vinnumálastofnunar er ábendingahnappur þar sem hægt er að koma á framfæri ábendingum um bótasvik.

„Ég er mjög ósáttur við þessa niðurstöðu [Persónuverndar] en verð auðvitað að hlíta henni,“ segir Gissur. „Þetta skiptir okkur talsvert miklu máli og ég er algerlega ósammála því að í þessu felist einhver sérstök hvatning eins og álit Persónuverndar ber með sér,“ bætir hann við

Persónuvernd heldur því ekki fram að stofnunum sem bjóða þennan möguleika sé bannað að taka við ábendingum um meint svik en telur að það samrýmist ekki grundvallarreglum um vandaða vinnsluhætti að stjórnvöld hvetji menn með þeim hætti til að koma á framfæri  persónuupplýsingum í skjóli nafnleyndar.

Gissur segir að fyrir Vinnumálastofnun hafi einungis vakað að þessi möguleiki sé skilvirkur og aðgengilegur.

„Við höfum haft af þessu mikið gagn og staðreyndin er sú að á einu ári vorum við að spara sennilega í kringum 150 milljónir í greiðslum eftir rannsóknir sem við settum af stað í kjölfar svona ábendinga,“ segir Gissur.

„Við munum auðvitað hlíta þessari niðurstöðu og taka þennan möguleika úr sambandi á heimasíðunni,“ segir Gissur en hann er þeirrar skoðunar að þessi niðurstaða Persónuverndar sé furðuleg og ætlar að gera velferðarráðuneytinu grein fyrir þeirri afstöðu sinni. 

Gissur segir að Vinnumálastofnun þurfi á aðstoð alls samfélagsins að halda við að vinna gegn svikum í atvinnuleysisbótakerfinu. Niðurstaða Persónuverndar byggist á því að Vinnumálastofnun gæti komist að því hver sendi inn ábendingar um meint svik en það skipti Vinnumálastofnun í raun og veru engu máli hver það sé. „Aðalmálið er að fá þessar ábendingar, geta kannað hvort eitthvað er á bak við þær og ef svo er ekki fellur málið um sjálft sig og engir eftirmálar verða. Þetta er aðstoð samfélagsins sem við þurfum svo sannarlega á að halda,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert