Á þeim 92 mánuðum sem krónan var á floti fram að hruni var hún aðeins á eða undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í 17 mánuði eða 18% tímans. Þetta kemur fram í leiðara Samtaka iðnaðarins í dag.
Höfundur greinarinnar er Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
„Krónan var sett á flot í mars 2001 og verðbólgumarkmið tekið upp undir faglegri forystu núverandi stjórnenda Seðlabankans. Á þeim tíma þótti verðbólgumarkmið skynsamleg stefna og í takt við nýjustu stefnu og strauma í peningahagfræði. Krónan var á floti í 92 mánuði en hrundi endanlega með bankakerfinu í október 2008.
Af þessum 92 mánuðum var verðbólgan aðeins á eða undir verðbólgumarkmiði í 17 mánuði eða 18% tímans. Afleiðingar misheppnaðrar baráttu við verðbólguna á flotárunum var vítahringur gífurlegs ójafnvægis í hagkerfinu, vaxtarmunaviðskipta frá útlöndum sem þrýsti upp genginu og leiddi til ótæpilegrar erlendrar skuldasöfnunar sem engan veginn gat staðist,“ skrifar Bjarni Már og víkur að Seðlabanka Íslands.
Stjórnlaus gjaldmiðill
„Til að bæta gráu ofan á svart endaði flottímabil krónunnar og þáverandi peningastefna í afar kostnaðarsömu tæknilegu gjaldþroti Seðlabankans. Árangursleysi bankans var þannig algjört. Virða má Seðlabankanum það til vorkunnar að býsna erfitt er að stýra stjórnlausum gjaldmiðli og að fjármál ríkis og sveitarfélaga, sem og Íbúðalánasjóður og bankakerfið, gengu á þessum tíma í þveröfuga átt við stefnu Seðlabankans um aukið aðhald.“
Bjarni Már segir hagvöxtinn ekki nægan til að ganga á atvinnuleysið.
„Ísland situr á botni einnar dýpstu efnahagskreppu sem gengið hefur yfir. Atvinnuleysi er í hámarki, krónan í skjóli umdeildra en geysilega stífra gjaldeyrishafta og fyrirtæki og heimili skuldsett. Seðlabankinn spáir því að hagvöxtur á næsta ári verði aðeins 1,6% og að atvinnuleysi verði 6,2%. Lítil aukning verði í fjárfestingu og óverulegur vöxtur í útflutningi þótt raungengi sé í sögulegu lágmarki.
Þokkalegur hagvöxtur þessa árs, knúinn áfram af vaxandi einkaneyslu, byggist á einskiptisaðgerðum sem bæta fjárhag heimilanna til skamms tíma. Á flesta hagfræðilega mælikvarða kallar þetta ástand á lægri vexti til að reyna að örva hagkerfið, koma fjárfestingu og neyslu af stað.“
Stjórn í skjóli hafta
Bjarni Már bendir á að efnahagslífið sé í skugga hafta.
„Þröng sýn á verðbólgu hefur áður komið okkur í koll. Seðlabankinn getur stýrt genginu að mestu leyti í skjóli hafta. Veiking krónunnar og þar með vaxandi verðbólga, gerist varla án vitundar og vilja Seðlabankans. Nú er bankinn að bregðast við verðbólgunni með vaxtahækkun sem vinnur gegn vexti efnahagslífsins. Þetta er séríslensk peningahagfræði sem aðeins er stunduð við Kalkofnsveg.
Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti að vextir yrðu áfram mjög lágir eða fram á mitt ár 2013 hið minnsta. Ástæðan er fyrst og fremst veikleikar í raunhagkerfinu. Svipaða sögu er að segja frá Bretlandi þar sem vextir eru mjög lágir þrátt fyrir að verðbólga sé tæp 5%. Í hinum vestræna heimi virðist áhersla hagstjórnaryfirvalda vera á að nota vaxta-tækið til að örva hagkerfið.
Ofuráhersla á verðbólgu virðist vera á undanhaldi nema hér á landi þar sem Seðlabankinn tilkynnti um fyrstu vaxtahækkun síðan eftir efnahagshrun og ber fyrir sig versnandi verðbólguhorfur. Vaxtabreytingar í löndunum í kringum okkur virðast eiga sér aðrar ástæður en hér. Eðlilegt er að rýna í ástæður þess.“
Verðbólguvæntingar Seðlabanka Íslands
Bjarni Már gagnrýnir Seðlabanka Íslands.
„Eru Seðlabankinn og núverandi stjórnendur hans hluti af þeim vanda sem þeir eru sjálfir að reyna að leysa? Eru háar verðbólguvæntingar tengdar vantrú á Seðlabankann og stefnu hans? Er skelfilegur árangur sjálfstæðrar peningastefnu á Íslandi að flækjast fyrir og hefur þau áhrif að breyting fæli í sér viðurkenningu á fyrri mistökum? Hverjar svo sem ástæðurnar eru er ljóst að nýleg vaxtahækkun Seðlabankans var þvert á væntingar og úr takti við það sem önnur lönd eru að gera.
Enga dul þarf að draga á skaðsemi verðbólgunnar og mikilvægi þess að ráðast gegn rótum hennar. En það er lítið gagn í meðulum og meðferðarúrræðum sem draga sjúklinginn til dauða. Íslenska hagkerfið stendur veikum fótum. Það meðferðarúrræði sem Seðlabankinn byrjaði að beita með vaxtahækkunum í miðri kreppunni mun síður en svo bæta stöðu hagkerfisins og getur þvert á móti gengið af mörgum dauðum.“