Læknanemi féll niður lyftugöng á Landspítalanum í Fossvogi í dag. Fram kom í fréttum RÚV að maðurinn slapp með skrámur en honum tókst að grípa í víra sem hanga neðan úr lyftunni.
Að sögn RÚV stöðvaðist lyftan á milli hæða. Þrír læknanemar voru í lyftunni og fékk húsvörður einn þeirra til þess að skríða út úr henni um þröngt op. Í stað þess að lenda á gólfinu fyrir framan lyftuna féll maðurinn hins vegar inn í opin lyftugöngin fyrir neðan. Honum tókst að grípa í víra sem hanga neðan úr lyftunni og draga þannig úr fallinu. Hann stöðvaðist að lokum í lykkju neðst á vírunum, þaðan sem honum var bjargað.
Hann slapp með brunasár á höndum eftir vírana, og skrámur á baki.