Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ákært fyrrverandi sambýlismann Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, fyrir að koma ökurita fyrir í bíl sem hún notaði. Með ökuritanum var hægt að fylgjast með ferðum bílsins þar til tækið uppgötvaðist.
Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld en þar sagði að þetta hefði gerst í fyrra. Það hefði komið Siv á óvart að maðurinn, Þorsteinn Húnbogason, virtist ávallt vita um ferðir hennar. Hún fann síðan ökuritann í bílnum og kærði málið til lögreglu.
Lögreglan hefur nú ákært Þorstein fyrir brot á fjarskiptalögum og fyrir brot á friðhelgi einkalífsins og verður ákæran þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 9. september nk.
Kom jafnframt fram í fréttum Stöðvar 2 að Þorsteinn hefði verið sóttur af talsverðu liði lögreglumanna til skýrslutöku á heimili sínu en hvorki hann né verjandi hans gáfu blaðamanni stöðvarinnar kost á viðtali. Þá vildi Siv ekki tjá sig um málið heldur.