Hjálpi ungu fólki að kaupa

Reykjavík séð frá Hallgrímskirkjuturni
Reykjavík séð frá Hallgrímskirkjuturni Ómar Óskarsson

„Við horfum á þrjá til fjóra árganga af ungu fólki sem hefur ekki keypt íbúð. Óvissa um verðþróun, framtíðina, atvinnu og kjör fælir ungt fólk frá því að fjárfesta í húsnæði. Því vaknar spurningin hvort ríkið geti stutt meira við ungt fólk svo það geti eignast sínu fyrstu íbúð,“ segir Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Pétur er fylgjandi séreignastefnu í húsnæðismálum.

Hann bendir á að ríkið ábyrgist fasteignalán á markaði.

„Í þeirri umræðu vill oft gleymast að ríkisvaldið veitir húseigendum mikinn stuðning með ríkisábyrgðum íbúðalánum í gegnum Íbúðalánasjóð. Varasamt væri þó að bjóða upp á hærra lánshlutfall en 80%. Því er spurning hvort traustir einkaaðilar og sveitarfélög geti keypt 20-40% hlut í íbúðinni sem húseigandi keypti til baka á 10 til 15 árum.

Fyrir þann eignarhluta yrði greidd hófleg leiga og einkaaðilar eða sveitarfélögin fengju til þess lán með ríkisábyrgð ef þau óskuðu. Með þessu fyrirkomulagi hagnast sá sem keypti eignarhlutann, hvort sem það yrðu sveitarfélög eða einkaaðilar, á hækkun fasteignaverðs en tapar að sama skapi ef verðið lækkar. Með þessu fyrirkomulagi mætti lána allt að 95% af kaupvirðinu gegn 5% eiginframlagi. Það verður einhvern veginn að laða fólk inn á markaðinn. Forsendan er að sjálfsögðu sú að umsækjendur fari í greiðslumat.“

Þyrftu 6.000 til 8.000 íbúðir 

Pétur segir uppsafnaða þörf fyrir nýjar íbúðir á viðráðanlegu verði fyrir ungt fólk.

„Í hverjum árgangi eru um 4-5 þúsund manns sem þurfa um 2.000 íbúðir að teknu tilliti til látinna. Sé reiknað með því að þrír til fjórir árgangar hafi ekki keypt sér fasteign hefur skapast þörf fyrir 6.000 til 8.000 íbúðir og líklega er offramleiðslan á íbúðum 2005 til 2007 búin. Byggja þarf ódýrari íbúðir en byggðar voru 2007, íbúðir sem eru hagkvæmar og í námunda við góðar almenningssamgöngur. Fasteignaverð hefur lækkað undanfarin ár en launin hækkað og því ætti ungt fólk að ráða við að kaupa húsnæði á hóflegu verði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka