Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) tekur fyrir sjöttu endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins á fundi sínum í Washington í dag. Er hún byggð á störfum sendinefndar á vegum sjóðsins frá því fyrr í sumar.
Julie Kozack, formaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í málefnum Íslands, sagði í fréttatilkynningu í byrjun júlí að efnahagskerfið sé smátt og smátt að rétta úr kútnum á Íslandi og það stefni í 2½% hagvöxt á næsta ári.
Sendinefndin kom til Íslands hinn 21. júní sl. en lauk störfum hér á landi 1. júlí.
Í tilkynningu frá Kozack kemur fram að á sama tíma og styrking hagkerfisins byggi á auknum fjárfestingum og neyslu þá hafi verðbólga aukist. Mælist hún nú meiri heldur en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands kveði á um. Verðbólgan endurspegli veikingu krónunnar, hækkun launa og húsnæðisverðs.
Peningastefnan hafi því verið hert, það sé eðlilegt í ljósi þess að verðbólgan muni aukast enn frekar, segir ennfremur í tilkynningu.