Lundinn er enn í Látrabjargi sem þykir mjög óvenjulegt svo seint um sumar. Landeigendur við bjargið minnast þess ekki að hafa séð lundann áður eftir 15. ágúst.
„Þetta virðast vera þrjú pör sem greinilega eru með unga þar sem lundinn er að bera síli í holuna,“ segir Hákon Ásgeirsson, starfsmaður frá Umhverfisstofnun sem ráðinn var til starfa 1. ágúst sem sérfræðingur við Látrabjarg. Hann sinnir einnig landvörslu við bjargið og nágrenni þess yfir sumartímann.
Að varptíma loknum hverfur lundinn úr bjarginu og heldur út á N-Atlantshaf þar sem hann dvelur yfir vetrartímann. Hann kemur svo aftur í bjargið í apríl. „Það hefur vakið mikla lukku hjá ferðamönnum við Látrabjarg að enn skuli vera lundi í bjarginu. En það er mjög óvenjulegt að hann skuli enn sjást þar í lok ágúst,“ segir Hákon.