„Öll hótel í Reykjavík eru gjörsamlega yfirfull og hið sama má segja um marga gististaði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins,“ segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, en þessa dagana fara fram mjög fjölmennar ráðstefnur í Reykjavík. Sú fjölmennasta er ráðstefna evrópskra stjórnmálafræðinga, sem fram fer á vegum Háskóla Íslands. Er það stærsta alþjóðlega ráðstefna sem haldin hefur verið hér á landi, með um 2.300 ráðstefnugestum.
Erna segir að þessi ráðstefna skarist við aðrar ráðstefnur og þess vegna hafi verið erfitt að koma öllum gestum fyrir, auk annars straums erlendra ferðamanna. Öll gistirými á suðvesturhorni landsins hafi því verið fljót að fyllast.