Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafi gengið betur en hann reiknaði með þegar til þess var stofnað. Samstarfið hafi verið árangursríkt og uppbyggilegt.
Steingrímur sagði á blaðamannafundi í dag að framkvæmd áætlunarinnar hefði eftir sem áður hvílt á Íslendingum. Þó að formlegu samstarfi við AGS væri lokið væru áfram erfið verkefni framundan, m.a. í ríkisfjármálum.
Steingrímur sagðist hafa ákveðið að fagna þeim degi sem samstarfinu við AGS lyki, vegna þess að hann hefði viljað vera laus við sjóðinn. Þetta hefði hins vegar gott samstarf. Hann sagði að Ísland hefði verið heppið með það fólk sem AGS hefði skipað til að vinna með íslenskum stjórnvöldum. Það hefði ástundað fagleg vinnubrögð enda hefði það ekki verið að gera þetta í fyrsta skipti.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði sömuleiðis að samstarfið hefði gengið betur en hana hefði órað fyrir. Öll meginmarkmið efnahagsáætlunarinnar hafi náðst. „Ísland hefur útskrifast með láði“ sagði Jóhanna.