Vilja að þingmenn íhugi stöðu sína

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) styður ummæli Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að draga beri aðildarumsókn Íslands að ESB til baka og hvetur þá þingmenn flokksins sem ekki geta unað niðurstöðu landsfundar að íhuga stöðu sína vandlega. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá SUS.

„Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) lýsir yfir stuðningi við ummæli Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, þess efnis að draga beri aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka.

Ummælin lét Bjarni falla í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni þann 14. ágúst sl. SUS hefur margsinnis lýst því yfir að draga beri umsóknina til baka enda séu bæði veikar og brostnar forsendur fyrir því að sækja um aðild að sambandinu.
Hagsmunum Íslands er best borgið utan ESB og því er engin ástæða fyrir Ísland að gerast aðili að sambandinu. Með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) hefur Ísland aðgang að innri markaði ESB og því eru öll nauðsynleg tækifæri fyrir hendi hvað varðar samstarf við sambandið.

Ísland er og á að vera fullvalda ríki. Evrópusambandið er sívaxandi bákn sem teygir anga sína sífellt lengra inn í aðildarríkin og þannig minnkar fullveldi aðildarríkjanna hægt og bítandi. Allt tal um að Ísland muni með inngöngu í ESB hafa áhrif á stefnu og störf sambandsins er marklaust. Þannig er ljóst að Ísland myndi sem aðildarríki ESB hafa lítið að segja um þær ákvarðanir sem teknar eru í Brussel, mestmegnis af ókjörnum embættismönnum.
Þróun ESB síðustu ár ætti að vekja öllum frelsisþenkjandi borgurum sambandsins ugg í brjósti. Eins og staðan er um þessar mundir eiga Íslendingar í baráttu við stjórnlynd yfirvöld og ekki á það bætandi að framselja ákvarðanatöku landsins til fyrrnefndra embættismanna í Brussel.

Íslenskir stjórnmálamenn geta ekki sett kíkinn á blinda augað gagnvart þeim erfiðleikum sem nú steðja að ESB og þá sérstaklega evrusvæðinu. Þrátt fyrir skakkaföll í íslensku efnahagslífi síðastliðin ár svo ekki sé minnst á óstjórn vinstri stjórnarinnar á efnahagsmálum, hefur Ísland alla þá burði til að auka hagsæld og velferð landsins utan ESB.

Þá hvetja ungir sjálfstæðismenn jafnframt aðra þingmenn Sjálfstæðisflokksins til þess að fylgja stefnu flokksins í málinu en hún liggur skýrt fyrir frá síðasta landsfundi. Þeir þingmenn sem ekki geta unað niðurstöðu landsfundar þurfa að íhuga stöðu sína vandlega."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert