Breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu eru flokksráðsmönnum Vinstri-grænna ofarlega í huga á flokksráðsfundi flokksins sem hófst síðdegis í gær.
Í tillögu stjórnar VG að ályktun um stuðning við ríkisstjórnina kemur m.a. fram að mikilvægt sé að ljúka vinnu við breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu þar sem óumdeild yfirráð þjóðarinnar á nytjastofnun á Íslandsmiðum verði tryggð og meint eignarréttarlegt samband útgerða á nytjastofnun landsins verði rofið.
Í umfjöllun um fundinn í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að mikil óánægja var á honum með umsagnir Landsbankans og nokkurra hagsmunaaðila um sjávarútvegsfrumvarpið, þó var óánægjan með umsögn ASÍ áberandi mest. Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, sagði Landsbankann haga sér eins og eiturlyfjasjúkling sem heimtaði meira dóp.
Forystumenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sluppu ekki við gagnrýni á flokksráðsfundinum í gær. Guðmundur Magnússon, flokksráðsmaður og formaður Öryrkjabandalags Íslands, gagnrýndi forystuna harðlega fyrir rangar áherslur í velferðarmálum. Hann fullyrti að ekki hafi orðið nein breyting á velferðarkerfinu síðan ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hafi tekið við. Guðmundur gekk svo langt að segja að velferðarkerfið hafi jafnvel versnað frá tíð fyrri ríkisstjórnar.